10 hollráð til að vernda tölvuna og gögnin þín þegar vafrað er um á internetinu.

25. ágúst 2024 | Tilkynningar

1. Notaðu vírusvarnarforritið sem fylgir Windows stýrikerfinu og uppfærðu það reglulega.


Önnur vírusvörn er ekki nauðsynleg, a.m.k. ekki til almennrar notkunar. En hún getur hugsanlega komið að gagni fyrir þá sem eru að vinna með viðkvæm gögn eða hafa sérstakar áhyggjur af öryggi. Í þeim tilfellum getur viðbót frá þriðja aðila við innbyggðu Windows vírusvörnina boðið upp á aukið öryggi og hugsanlega hugarró. Auka vírusvörn dregur úr vinnslugetu tölvunnar og er í raun óþarfa peningaaustur.

2. Uppfærðu hugbúnað og stýrikerfi tölvunnar með nýjustu útgáfum.


Haltu stýrikerfinu og forritum uppfærðum. Fylgstu vel með og þegar uppfærsla er gefin út skaltu hlaða henni niður og setja upp strax. Þessar uppfærslur innihalda nýjungar, öryggisleiðréttingar og annað nauðsynlegt viðhald.

3. Farðu varlega við að setja inn forrit.


Fylgstu vel með skjánum þegar þú setur upp hugbúnað. Þrátt fyrir að forritið sem verið er að setja upp sé frá viðurkenndum aðila þá leynast oft valkostir á hugbúnaði frá þriðja aðila sem einnig verður settur upp ef ekki er að gáð. Farðu varlega á hverju stigi ferlisins og vertu viss um að þú vitir hvað það er sem þú ert að samþykkja áður en þú smellir á „Next“.

4. Settu inn „ad blocker“.


Settu inn í vafrann forrit, „ad blocker“, til dæmis frá AdGuard sem stöðvar skaðlegar og óþarfar auglýsingar, Trjóhesta, vefveiðar og annað óæskilegt efni sem vírusvarnarforritið  getur eitt og sér ekki stöðvað.

5. Ekki ná í hvað sem er á netinu.


Helsta markmið netglæpamanna er að plata þig til að hlaða niður spilliforritum; forritum eða öppum sem innihalda spilliforrit sem reyna að stela upplýsingum. Þessi spilliforrit er hægt að dulbúa sem forrit, allt frá vinsælum leik til einhvers sem t.d. gefur þér upplýsingar um veður eða umferð.

6. Vertu á varðbergi. Það er fullt af fólki sem er að reyna að plata þig.


Hvort sem það er tölvupósturinn þinn, síminn, spjallforritið eða önnur forrit; vertu alltaf vakandi og á varðbergi fyrir einhverjum sem reynir að plata þig. Alls ekki smella á tengla eða svara skilaboðum án umhugsunar. Mundu að það er auðvelt að falsa símanúmer. Kunnuglegt nafn eða númer gerir skilaboð ekki áreiðanlegri.

7. Taktu afrit af gögnunum þínum.


Taktu öryggisafrit af gögnunum þínum oft og athugaðu hvort hægt sé að endurheimta öryggisafritin þín. Þú getur gert þetta handvirkt á utanáliggjandi diski eða minnisykli eða sjálfkrafa með því að nota öryggisafritunarhugbúnað. Þetta er líka besta leiðin til að vinna gegn gagnatapi. Tengdu aldrei öryggisafritunardrifið við tölvu nema vera hafa staðfest að tölvan sé ekki sýkt af spilliforritum.

8. Veldu flókin aðgangsorð.


Notaðu löng og flókin lykilorð fyrir hvern aðgang fyrir sig. Forðastu að nota persónulegar upplýsingar eða orð sem auðvelt er að giska á í lykilorðum. Virkjaðu tvíþætta auðkenningu (2FA) þegar mögulegt er. Til að einfalda utanumhald lykilorða er gott að nota forrit eins og Keeper eða önnur hliðstæð.

9. Vertu á varðbergi. Ekki smella á hvað sem er.


Sýndu varkárni þegar þú smellir á tengla eða hleður niður viðhengjum frá óþekktum aðilum. Það gæti hugsanlega innihaldið spilliforrit eða vefveiðar.

10. Alls ekki nota sjóræningjaútgáfur af forritum. Aldrei.


Forðastu að nota skráadeilingarforrit, sjóræningjalykla eða fölsk leyfisnúmer eða annan illa fenginn hugbúnað. Slíkt getur eyðilagt gögnin þín, friðhelgi einkalífsins eða hvort tveggja.

Það eru margar hætturnar sem ber að varast þegar vafrað er um á netinu. Ef farið er eftir þessum 10 hollráðum hér að ofan þá getur þú varið þig og gögnin þín og komið í veg fyrir óþægilegar uppákomur. En þegar upp er staðið þá skiptir mestu máli að sýna aðgát og skynsemi.

Fleiri tilkynningar

Jóla- og áramótakveðja

Lögurinn - tölvuþjónusta óskar viðskiptavinum sem og Austfirðingum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Takk fyrir samskiptin og...

read more

Gagnavistun

Eru gögnin þín í öruggum höndum? Átt þú afrit af myndunum sem eru á símanum ef hann týnist eða skemmist? Lögurinn – tölvuþjónusta býður núna upp á...

read more